Hver er þessi Davis?

Ronald Dell Davis, höfundur bókanna The Gift of Dyslexia ogThe Gift of Learning er bandarískur  verkfræðingur f. 1942.
Hann var einhverfur og lesblindur og 12 ára var hann skráður fáviti, (greind undir 50 IQ). Sautján ára gamall var hann greindarmældur upp á 137 stig og 27 ára upp á 169!
Engu að síður var hann ólæs fram undir fertugt. Þrátt fyrir ólæsið fékkst hann við ýmis störf; hann vann m.a. sem verkfræðingur, ökukennari og fasteignasali.

Um 1980 var hann orðinn vel stæður og ákvað að leggja allt undir og freista þess að leysa lesblindugátuna.
Með aðstoð fjölda sérfræðinga fann hann hvað veldur lesblindu og aðferð til að leiðrétta hana, aðferð sem við þekkjum nú sem Davis® kerfið.

Hann stofnaði Research Council 1982 og Davis Dyslexia Association International 1995.

Fyrri bók hans, The Gift of Dyslexia, frá 1994, hefur verið gefin út á 20 tungumálum, (Náðargáfan lesblinda á íslensku), og nú starfa Davis® lesblinduleiðbeinendur í 40 löndum og bjóða Davis® leiðréttingar á 30 tungumálum.
Í seinni bók sinni, The Gift of Learning, sem gefin var út 2003, fjallar Davis um athyglisbrest, ofvirkni, stærðfræði, rithönd og fleira.

Nú um stundir einbeitir Davis sér að rannsóknum á einhverfu og vonandi sjáum við næstu bók áður en langt um líður.